Mjólkurlaus muffins

20161024_160012Fyrir viku síðan þá var Kvennafrídagurinn mikli. Húsfrúin og Sólargeislinn lögðu að sjálfsögðu niður störf og hvöttu aðrar dáðakonur til að gera slíkt hið sama. Við eyddum síðan restinni af deginum saman og gerðum það sem okkur finnst gaman. Ungfrú Sólargeisli er sérstaklega áhugasöm um matargerð og vill ólm aðstoða við alla eldamennsku. Það getur nú verið snúið að finna hlutverk í eldhúsinu sem hentar eins og hálfs árs aðstoðarkokk og er ekki líklegt til að valda slysum. Þar hefur bakstur komið sterkt inn. Þá setjum við báðar á okkur svuntu í stíl, ég sé um að mæla þurrefni (og blautefni) en hún sér um að hella þeim í skálina og aðstoða við að hræra. Í þetta skipti gerðum við vinsælu muffinsin mín sem svo heppilega vill til að eru einnig mjólkurlaus. Ég býð því iðulega uppá þessi muffins í veislum og við önnur tilefni þegar von er á litlum vinkonum og vinum sem ekki þola mjólk í mallann sinn. Ekkert mál að gera þau eggjalaust líka, þá nota ég „No-egg, egg replacer“ og fer eftir leiðbeiningum á pakkanum.

Erfiðleikastig: Mjög auðvelt          Fyrir: Myndar 12 muffins               Tími: 30 mín

Innihald:

  • 2 egg
  • 2 dl sykur
  • 1 dl kókosmjólk (úr dós eða fernu)
  • 100 gr smjörlíki (t.d. ljóma sem er mjólkurlaust)
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 msk kakó

Þeytið egg og sykur saman. Bræðið smjörlíki, blandið við kókosmjólkina og bætið við eggin. Blandið að lokum þurrefnum saman við. Látið í muffinsform og bakið í 15 mín við 200°C.

Sjálfsagt er að skreyta muffinsin. Ég notaði smarties EN ATHUGIÐ AÐ SMARTIES ER EKKI MJÓLKURLAUST! Sé um ofnæmi að ræða þá þarf því að nota eitthvað annað.

Þessi færsla var birt undir Uppskriftir. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd