Canneloni með spínati

20161126_180910

Á þessum myrkasta tíma ársins reyni ég gjarnan að nálgast sólina í gegnum matseld. Þá leita ég oft í suðræna matargerð eins eitthvað ítalskt eða spænskt. Það þarf ekkert að fara leynt með það að ég er hrifin af ítalskri matargerð. Hún felur í sér ljúffengan mat þar sem ferskleikinn og einfaldleikinn spila stórt hlutverk. Sé smáræði af ítölsku víni sötrað með þá er næsta víst að hugurinn ferðist á sólríkan stað um stundar sakir.

Canneloni eru einskonar pastarör sem hægt er að setja margskonar fyllingu inní og baka síðan í ofni, oft með sósu. Það er klassískt að fylla þessi rör með ricotta osti og spínati og baka í ofni með tómatsósu og osti. Hérna gerði ég afbrygði af þessum rétti en notaði rjómaost og kotasælu í staðinn fyrir ricotta og leyfði einnig smá grænu pestó að fljóta með.

Ég prófaði nú að nota sprautupoka til að fylla rörin og tókst það mjög vel. Það er mun auðveldara en að nota skeið (þá fer allt út um allt) og maður nær að fylla rörin betur. Mæli með því!

20161126_180922

Erfiðleikastig: Meðal                      Fyrir: 4                       Tími: 45-60 mín

Innihald

  • 1 poki ferkst spínat (300 g)
  • 1 dós philadelphia rjómaostur (250 g)
  • 1 dós af kotasæltu (250 g)
  • 1/2 krukka af grænu pestó
  • 20 canneloni rör (fást í flestum stórmörkuðum)
  • 1 krukka Tóma-Basil pasta sósa
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1/2 paprika
  • 1 laukur
  • 3 sveppir
  • Ostur

Byrjið á því að gufusjóða spínatið í 3-5 mínútur og setjið svo til hliðar í sigti svo að vökvinn geti runnið af því. Á meða spínatið er að kólna þá er ágætt að búa til tómatsósuna. Skerið lauk niður og steikið á meðalhita þar til hann fer að glansa, bætið þá niðurskornum sveppum og papriku við og mýkið aðeins. Hellið pastasósunni á pönnuna og merjið hvítlaukinn saman við. Leyfið sósunni að malla aðeins á vægum hita.

Þá er komið að því að útbúa fyllinguna. Skellið rjómaostinum, kotasælunni, pestóinu og spínatinu saman í skál og mauka saman með töfrasprota. Síðan er blandan sett í sprautupoka. Ég fór þá leið að ég raðaði canneloni rörunum uppá endann í eldföstu móti og síðan gekk ég á röðina með sprautupokann á lofti. Þannig fyllti ég rörin koll af kolli og lagði þau svo niður á hliðina í lokin. Þegar ég var búin að koma fylltu rörunum fyrir, hellti ég sósunni yfir og toppaði með smá rifnum osti. Að því loknu var mér ekki til setunnar boðið og skellti herlegheitunum inn í ofn á 180°C í 35 mín.

Best að borða með nóg af fersku salati og bökuðu hvítlauksbrauði!

Namm namm og verði ykkur að góðu!

 

 

Þessi færsla var birt undir Uppskriftir. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd