Karrý með kjúklingabaunum og spínati

CAM00772aÉg ætlaði alls ekkert að gera þennan rétt. Ég ætlaði að henda í kjúklingabaunakarrý sem ég birti á blogginu mínu síðasta nóvember. Svo áttaði ég mig á því að ég átti ekki allt sem þarf og endaði á því að vera búin að gera svo mikið af breytingum að þetta var ekkert sami réttur. Þessi er hinsvegar ekkert síðri og mér þótti unun að elda hann því litasinfónían gladdi mig svo. Ég byrjaði á því að steikja rauðlauk og bætti svo rauðri papriku og engiferi við, þá var ég komin með blátt, rautt og gult. Svo setti ég hvítlauk og spínat sem bætti við hvítu og grænu. Þetta var mjög fallegt. Síðan þegar ég bætti við karrýmauki og kókosmjólk þá varð lokaniðurstaðan bleikur réttur. Spurning um að kalla þetta regnbogakarrý?

Erfiðleikastig:  Auðvelt             Tími: 30-40 mín          Fyrir: 2-3

Innihald:

  • 1 1/2 rauðlaukur
  • 1/2 paprika
  • 1 cm ferskt engifer
  • 50 g spínat
  • 1 tómatur
  • 4 hvítlauksrif
  • 1 dós kókosmjólk
  • 3 msk karrýmauk (ég nota, sem fyrr, Pataks mild curry paste)
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 msk kókosolía

Byrja á því að bræða og hita kókosolíuna á pönnu. Brytja svo rauðlaukinn smátt og steikja í olíunni. Notið meðalhita og gefið lauknum tíma. Síðan er brytjuð niður paprika og engifer og sett með lauknum. Takið tíma til að njóta litanna. Eftir nokkrar mínútur er spínatinu bætt við og brytjuðum hvítlauknum og leyft að malla undir loki þar til spínatið er orðið mjúkt. Bætið þá við karrýmaukinu og blandið vel. Bætið svo við kókosmjólkinni og leyfið að malla í 5-10 mín. Bætið þá við kjúklingabaunum og leyfið að malla aðrar 10 mín.

Berið fram með hrísgrjónum og naan brauði 🙂

Þessi færsla var birt í Uppskriftir og merkt sem , , , , , , , . Bókamerkja beinan tengil.

Eitt svar við Karrý með kjúklingabaunum og spínati

  1. katacakes sagði:

    Hvað gerirðu við tómatinn?

Færðu inn athugasemd