Fotografiska

fotografiskaFotografiska er safn í Stokkhólmi sem setur upp spennandi ljósmyndasýningar frá bæði þekktum og upprennandi ljósmyndurum. Á efstu hæð í safninu er bistro sem státar af einu besta útsýni sem finnst í allri borginni. Ekki skemmir það heldur að staðurinn stærir sig af vönduðum vinnubrögðum þegar kemur að matargerð.

Ég hefði líklega ekki farið á kaffiteríuna í safninu ef vinkona mín hefði ekki bent mér á að kíkja á útsýnið þarna uppi. Ég er mjög fegin að hafa farið að ráðum hennar. Staðurinn er sæmilega stór, með borðum og stólum en einnig þægilegum sófum sem hægt er að sitja í og hafa það gott. Stórir gluggar sem ná frá gólfi til lofts eftir öllum staðnum gera manni kleyft að njóta útsýnisins og gera staðinn mjög bjartan. Hægt er að horfa yfir á Djurgården þar sem Gröna Lund og Skansen eru til staðar (örugglega gaman að horfa á Tivoli Gröna Lund á sumrin), en einnig má sjá yfir Gamla Stan og allar fallegu byggingarnar þar.

Ég var á staðnum um miðjan dag og þá var kaffihúsastemning yfir staðnum. Hægt var að fá allskonar Smörgås (opnar samlokur) og kaffimeðlæti. Ég fékk mér brauð með roastbeef og súrum gúrkum, kaffi latte og kanilsnúð. Þetta var ákaflega gott og vandað. Mér skilst að þeir séu einnig með brunch um helgar, kannski ég prófi það næst.

Mér líkaði mjög vel við staðinn, það var þægilegt og afslappað andrúmsloft, góður matur og frábært útsýni.

fotografiska

Heimasíða Fotografiska

Þessi færsla var birt í Uppskriftir, Veitingarýni og merkt sem . Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd